Skuggavaldið

Í Skuggavaldinu ræða prófessorarnir Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir saman um hvaðeina er viðkemur samsæriskenningum. Samfara örum samfélagsbreytingum hefur samsæriskenningum hratt vaxið fiskur um hrygg, svo sem í kjölfar Brexit, stjórnartíðar Donalds Trump og COVID-faraldursins. Samsæriskenningar eru þó ekki nýjar af nálinni, heldur hafa þær fylgt manninum frá öndverðu og nærast á þörf til að greina hulið skipulag í óreiðu. Framleitt af Tal.

Listen on:

  • Podbean App

Episodes

Monday Jan 05, 2026

Beittu stjórnvöld á Kúbu, eða jafnvel í Rússlandi, leynilegu hátæknivopni til að slá bandaríska sendimenn í Havana út af laginu? Óútskýrð veikindi bandarískra diplómata seint á árinu 2016 urðu upphaf að einni undarlegustu og umdeildustu pólitísku ráðgátu samtímans. Eiríkur og Hulda rekja hér sögu hins svokallaða Havana-heilkennis í sögulegu, pólitísku og sálfræðilegu samhengi allt frá byltingu Castros og áratugalangri tortryggni, í gegnum varfærna þíðuna í tíð Obama, og til hins snögglega afturhvarfs þegar Trump tók við völdum.

#31 - Er jólasveinninn til?

Monday Dec 22, 2025

Monday Dec 22, 2025

Er sagan um jólasveininn eitt útbreiddasta samsæri mannkynssögunnar? Eða er samsæriskenningin kannski sú að afneita tilvist hans? Í þessum sérstaka jólaþætti Skuggavaldsins rekja Eiríkur og Hulda sögu jólasveinsins frá leyndardómsfullu ráni á beinum heilags Nikulásar til mótunar hinnar bandarísku Santa Claus-ímyndar. Sérstök athygli er veitt íslensku jólasveinunum, sem gætu allt eins verið álitnir skipulagður glæpahringur þar sem hver sveinn gegnir sérhæfðu hlutverki í markvissum matarránsferðum undir stjórn Grýlu. Við veltum fyrir okkur sálfræðinni á bak við „stóru lygina“ – ef hún er þá lygi – og spyrjum hvort við höfum vanmetið getu fullorðinna til að sammælast um blekkingu, en þátturinn tekur óvænta stefnu þegar sjálfur Gáttaþefur ryðst inn í stúdíóið til að verja heiður sinn.
 
Skuggavaldið er í samstarfi við Vesturröst og Plöntuna kaffihús og bístró
Sendið okkur ábendingar á skuggavaldid@gmail.com

Monday Dec 08, 2025

Vissi Bandaríkjastjórn af árásunum 11. september og lét þær gerast – eða átti jafnvel sjálf hlut að máli? Í seinni þætti Skuggavaldsins um hryðjuverkin rýna Hulda og Eiríkur í lífseigar kenningar um aðkomu innlendra aðila, pólitíska eftirmála og mistök bandaríska kerfisins, auk hins umdeilda Sádi-Arabíu-vinkils. Þau fara yfir ný gögn, málaferli aðstandenda og hvernig óvissa og vantraust urðu frjósamur jarðvegur fyrir langlífar samsæriskenningar.
 
Skuggavaldið er í samtarfi við veiðibúðina Vesturröst og Plöntuna kaffihús og bístró.
 
Ábendingar sendist í skuggavaldid@gmail.com

Monday Nov 24, 2025

Voru Tvíburaturnarnir felldir í stýrðu niðurrifi? Í þessum þætti rýnir Skuggavaldið í lífseigustu samsæriskenningar um 11. september: að stjórnvöld hafi komið að sprengingu turnanna og síðar byggingar 7, og að á Pentagon hafi ekki lent farþegaþota heldur flugskeyti. Eiríkur og Hulda skoða af hverju slíkar hugmyndir lifa áfram, þrátt fyrir að bæði hrun bygginganna og árásina á Pentagon megi skýra án slíkra innri leyniaðgerða.
 
Skuggavaldið er í samtarfi við veiðibúðina Vesturröst og Plöntuna kaffihús og bístró.
Ábendingar sendist í skuggavaldid@gmail.com

Monday Nov 10, 2025

Var Úkraína í raun nasistaríki og peð Vesturlanda sem ógnaði Rússlandi? Eiríkur og Hulda rýna í það hvernig rússnesk stjórnvöld byggðu upp kerfisbundna frásögn þar sem nágrannalandið var málað sem leppur siðspilltra vestrænna afla – „nasistaríki“ sem þyrfti að „hreinsa“ – á sama tíma og sjálfstæði þess var afneitað sem tilbúnningi. Þau rekja uppruna og þróun þessarar samsærisorðræðu, sýna hvernig hún varð að hugmyndafræðilegu vopni og forspili innrásarinnar, og greina jafnframt hvernig gagnkvæm tortryggni og andúð Vesturlanda og Rússlands í Kalda stríðinu varð að frjókorni óttans og auðveldaði dreifingu slíkra sagna.
 
Skuggavaldið er í samstarfi við Vesturröst og Plöntuna kaffihús og bístró
Sendið ábendingar á skuggavaldid@gmail.com. 

Monday Oct 27, 2025

Voru meðlimir Pussy Riot og andófsmaðurinn Alexei Navalny í raun útsendarar vestrænna óvina Rússlands? Eiríkur og Hulda kafa ofan í rússneska samsærisheiminn – þar sem list, trú og pólitík fléttast saman í eitruðum kokteil. Þau rekja söguna af pönkbæn Pussy Riot í dómkirkju Moskvu, réttarsalnum, fangelsunum og flóttanum til Íslands. Þau ræða einnig um Alexei Navalny, eitrunina, fangelsun hans og andlátið í haldi Kremlarvaldsins. Fyrst og fremst fara þau yfir það hvernig gagnrýni á rússnesk stjórnvöld er snúið uppí frásögn um landráð og svik, hvernig öllu snúið upp í að vera hluti af hinu stóra samsæri Vesturlanda gegn Rússlandi. 
 
Skuggavaldið er í samtarfi við veiðibúðina Vesturröst og Plöntuna kaffihús og bístró.
Ábendingar sendist í skuggavaldid@gmail.com

Monday Oct 13, 2025

Hvernig fékk hugmyndin um að jörðn væri flöt nýtt líf á netinu? Hulda Þórisdóttir og Eiríkur Bergmann rekja söguna frá sönnunum forn-Grikkja um hnattlögun jarðar til sprellifandi samsærissamfélags síðasta áratugar. Við kynnumst Rowbotham og viktoríönsku Zetetic-samfélagi, förum yfir tilraunir Mad Mike til þess að skjóta sér á loft, hlutverk YouTube algrímsins, ráðstefnur og kannanir sem sýna lítinn merkilega stóran hóp efasemdafólks. Skemmti- og fræðsluferð inn í furðulegan afkima samtímans þar sem traust, vísindi og samsæriskenningar togast á.
 
Kostendur Skuggavaldsins eru Vesturröst veiðiverslun  og Plantan kaffihús og bistro. 
Sendið ábendingar á skuggavaldid@gmail.com

Monday Sep 29, 2025

Var dramatísk lausn Julian Assange sigur réttlætisins – eða kaldur hráskinnaleikur stórveldanna?
Í fjórða og síðasta þætti syrpunnar um WikiLeaks segir Kristinn Hrafnsson frá leynilegum samningaviðræðum sem leiddu til þess að Assange var loksins leystur úr haldi eftir fimmtán ár. Eiríkur og Hulda ræða við hann um æsilegan lokasprettinn, alþjóðlega diplómatíu og hvernig baráttan fyrir frelsi uppljóstrara hélt áfram til síðasta dags – og leggja að lokum mat á þetta heimssögulega mál.

Monday Sep 15, 2025

Hvernig endaði íslenskur fréttamaður í miðju stærsta tjáningarfrelsismáls samtímans? Í þessum þætti segir Kristinn Hrafnsson frá fyrstu kynnum sínum af Julian Assange, dramatískum uppljóstrunum Wikileaks og því þegar stórveldin fóru að sýna klærnar.
Skuggvaldið er í samstarfi við Vesturröst og Plöntuna Bístro og kaffihús. 
Skuggavaldið verður á Vísindavöku RANNÍS í Laugardalshöll þ. 27. september 2025 kl 15:40. 
Sendið okkur línu á skuggavaldid@gmail.com

Monday Sep 01, 2025

Var Julian Assange á mála hjá Rússum eða jafnvel CIA? Sameinuðust leyniþjónustur heims kannski öllu heldur í því að þagga niður í honum? Hulda og Eiríkur rekja hvernig hetjan sem afhjúpaði stríðsglæpi í Írak breyttist í lýjandi gest sem enginn vildi. Þau fara yfir hið meinta kynferðisbrotamál í Svíþjóð, árin í sendiráði Ekvador og allt til reyfarakenndrar atburðarrásar þegar Assange fékk loks frelsi í júní 2024. Í þættinum er fjallað um það hvernig stórveldi beita sér frá ófrægingu til fangelsunar til að ná böndum á þeim sem ógna þeim.
Skuggvaldið er í samstarfi við Plöntuna Bístro og kaffihús, Atlantsolíu og Vesturröst. 
Skuggavaldið verður á Vísindavöku RANNÍS í Laugardalshöll þ. 26. september 2025. 
Sendið okkur línu á skuggavaldid@gmail.com

Copyright 2024 All rights reserved.

Podcast Powered By Podbean

Version: 20241125